UM KÝR… OG FLEIRA FÓLK

Egill Eðvarsson
January 29, 2024

Nefndi Larry Rivers í síðasta Mola (fæ heitið Moli / Molar lánað hjá góðum og gengnum vini, Eiði Guðnasyni). Ætla hér hins vegar að nefna annan bandarískan snilling, sem alltaf hefur verið í miklu uppáhaldi hjá mér… og er enn, Andy Warhol. Kynntist honum ungur og tók ástfóstri við verk hans myndir, málverk, prent, kvikmyndir og  endalausar uppákomur. Sérstaklega er eftirminnileg sýning sem ég sá á Whitney í NY 1971, þar sem kýr-veggfóðrið á veggjum safnsins tók alla athygli manns þannig að myndir eins og litríku blómamyndirnar hans, og Campell-súpurnar góðu gjörsamlega týndust í “kúaskítnum”!

Og talandi um kýr þá málaði ég um tíma dýr eins og kýr og seldi meðal annars eina ljómandi fína mynd af kú til Landsbankans, sem setti sömu mynd á sölu hjá Gallery Fold fyrir liðlega ári síðan. Glöggur starfsmaður Foldar, Maddý Hauth, sagði mér að mynd eins listamanns gallerísins, Þorgríms Andra Einarssonar (frábær myndlistarmaður. Vildi að ég gæti málað eins og hann), svipaði mjög til umræddrar myndar. Skemmtileg tilviljun…  því Þorgrímur hafði aldrei séð mína mynd, þegar hann málaði sína. Gaman að vera í góðum félagsskap… takk Andy og takk Þorgrímur Andri!